Er ferðaþjónusta á Íslandi í góðum málum?

Ég bý í miðbænum og legg mikla stund á labbitúra um bæinn og í kringum hann. Núna er varla þverfótað fyrir ferðamönnum á Laugaveginum og finnst mér gaman að sjá alls konar leiðsögumenn spretta upp eins og gorkúlur. Ég hjólaði framhjá Þjóðminjasafninu á laugardaginn og þá var einmitt einn slíkur að útskýra fyrir 40 manna hópi tilvist Þjóðleikshússins og hef ég séð þó nokkra bjóða upp á leiðsögn um Reykjavík. Ég var líka að hlaupa hjá Öskjuhlíðinni um daginn og þá náðu rúturnar frá Perlunni niður að hringtorgi hjá litlu hlíðunum. Ég eiginlega vorkenndi ferðamönnunum upp í Perlu þar sem þeir hrúguðust inn hver á fætur öðrum. Tóku myndir og svo var haldið aftur inn í rútu ásamt öllum hinum.

Ég hef sjálf verið ferðamaður á hinum ýmsu stöðum og ég er alveg þannig að ég þarf að „tikka í boxin“ sjá Taj Mahal, Angkor Wat, Big Ben o.s.frv. Ég geri mér þá grein fyrir að ég þarf að vera túristi og jafnvel vera þar sem „hinar rúturnar“ eru. En svo langar mig alltaf að sjá líka eitthvað það sem ekki allur straumurinn fer að sjá.

Svo segir mér hugur um að flestir ferðamenn hugsi nokkuð svipað þ.e. að þeir vilja sjá það sem þykir sérstaklega merkilegt við landið og „tikka þannig í boxin“ en svo eitthvað sem þeir hafa sérstaklega áhuga á út frá áhugasviði þeirra. Því velti ég því fyrir mér hvort við séum búin að greina ferðamannahópinn sem kemur til Íslands nægilega vel?

Getum við gert betur þannig að allir fái það sem þeir vilja út úr ferðalaginu sínu til Íslands?